Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 163  —  161. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um staðfestingu ríkisreiknings 2020.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

Staðfesting ríkisreiknings.

    Með lögum þessum staðfestist ríkisreikningur fyrir árið 2020, sbr. 58. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.

2. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er ríkisreikningur 2020 lagður fyrir Alþingi til staðfestingar í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem tóku gildi í ársbyrjun 2016.
    Ríkisreikningur fyrir árið 2020 er fjórði reikningurinn sem gerður er samkvæmt lögum um opinber fjármál sem byggjast meðal annars á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrir opinbera aðila (IPSAS).
    Í fyrri hluta ríkisreiknings er yfirlit um afkomu, efnahagsreikningur, sjóðstreymi, yfirlit um breytingu eigin fjár og yfirlit um rekstur málefnasviða ásamt viðeigandi skýringum en í seinni hluta er að finna séryfirlit og sundurliðanir sem gefa frekari upplýsingar um ríkisfjármálin.
    Áritun Ríkisendurskoðanda er án fyrirvara og niðurstaða endurskoðunarinnar er að ríkisreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu ríkissjóðs 31. desember 2020, afkomu ríkissjóðs árið 2020 og breytingu á handbæru fé á árinu 2020 í samræmi við lög um opinber fjármál. Ábending er um stöðu innleiðingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla þar sem heimilað hefur verið að fresta innleiðingu allra staðla að fullu fyrir árslok 2020.
    Innleiðing á breyttum reikningsskilum er umfangsmikið verkefni og er því ekki að fullu lokið með útgáfu á ríkisreikningi fyrir árið 2020. Reikningsskil fyrir árið 2020 eru gerð á grundvelli IPSAS-staðlanna með þeim frávikum þar sem reikningsskilaráð hefur heimilað frestun á innleiðingu nokkurra staðla. Reikningsskilaráð A-hluta ríkisins hefur heimildir til frestunar á innleiðingu staðla eins og kemur fram í 52. gr. laga um opinber fjármál en þar segir: „Reikningsskilaráð getur frestað tímabundið að taka upp hluta af stöðlunum, enda liggi til þess málefnalegar ástæður. Í ríkisreikningi skal gera grein fyrir hvaða atriðum staðalsins er ekki fylgt, ástæðum þess og áhrifum á afkomu og fjárhag.“
    Vegna umfangs innleiðingar á alþjóðlegum reikningsskilum hefur reikningskilaráð ákveðið að heimila frestun á innleiðingu eftirfarandi staðla að ósk fjármála- og efnahagsráðuneytis og Fjársýslu ríkisins:
     *      IPSAS 13 um leigusamninga.
     *      IPSAS 35 um samstæðureikningsskil.
     *      IPSAS 36 um fjárfestingar í hlutdeildarfélögum og sameiginlegum verkefnum að hluta
     *      IPSAS 37 um samrekstur.
     *      IPSAS 38 um upplýsingagjöf um hagsmuni í öðrum rekstrareiningum.
    Ítarlega greiningu um hvernig einstaka staðlar eru innleiddir er að finna í skýringu 2 í ríkisreikningi þar sem einnig er fjallað um heimildir til að fresta innleiðingu staðla og hvernig þær heimildir eru nýttar.
    Framsetning og flokkun samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli (GFS) er sú flokkun og framsetning sem 1. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 miðar við. Bæði GFS og IPSAS er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni en þeir hafa ólíkar áherslur. IPSAS samræmir reikningsskil með áherslu á rekstrarafkomu og stöðu efnahags, gerir kleift að meta fjárhagslega afkomu, skerpa ábyrgð stjórnenda og auka gagnsæi fyrir ákvarðanatöku í rekstri. GFS metur efnahagsleg áhrif opinberrar fjármálastefnu, greinir áhrif hennar á hagkerfið og valkosti við ákvarðanatöku í opinberum fjármálum. Megináhersla GFS er á heildarafkomu sem mælikvarða á efnahagsleg áhrif og eru því hagstjórnarmarkmið skv. 1. gr. Fjárlaga fyrir árið 2020 sett fram samkvæmt GFS-staðlinum. Þótt GFS-staðallinn sé að mörgu leyti samanburðarhæfur við IPSAS-staðlana eru ákveðin frávik í veigamiklum stærðum og í töflu 1 eru sýnd þau frávik sem hafa mestu áhrifin.

Tafla 1. Skýringar á mun í uppgjörsaðferðum þjóðhagsreikninga (GFS) og ríkisreiknings (IPSAS).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Vegna þess að afkoma ríkissjóðs samkvæmt niðurstöðu ríkisreiknings er ekki samanburðarhæf við 1. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 er í séryfirliti 9 á bls. 153 í ríkisreikningi sett fram niðurstaða samkvæmt GFS-staðli sem sýnir afkomu ríkissjóðs gagnvart framsetningu fjárlaganna og skýrð eru frávik á milli staðlanna. Samanburður 1. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 við uppgjör ársins aðlagað að fjárlagagrunni kemur fram í töflu 2.

Tafla 2. Heildarafkoma – samanburður við fjárlög.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Ársskýrslur ráðherra voru birtar samhliða ríkisreikningi 2020. Í þeim eiga ráðherrar að gera grein fyrir niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka og bera saman við fjárheimildir fjárlaga. Einnig skal greina frá fjárveitingum til einstakra ríkisaðila og verkefna og meta ávinning af ráðstöfun þeirra með tilliti til settra markmiða og aðgerða.
    Heimsfaraldur kórónuveiru hafði töluverð áhrif á afkomu ársins. Traustri fjárhagsstöðu ríkissjóðs fyrir faraldurinn var beitt til þess að draga úr efnahags- og samfélagslegu tjóni og leggja grunn að viðspyrnu efnahagslífsins. Ríkisstjórnin kynnti á árinu 2020 úrræði sem ætlað var styðja beint við efnahagslega vörn, vernd og viðspyrnu heimila og fyrirtækja. Þessi úrræði fólu í sér bein útgjöld fyrir ríkissjóð (tilfærslur), minni skattheimtu, heimildir til frestunar skattgreiðslna milli ára og ábyrgðir sem geta raungerst síðar sem kostnaður fyrir ríkissjóð. Mótuð voru sértæk efnahagsúrræði sem ætlað var að vinna gegn áhrifum faraldursins. Áhrif COVID-19-ráðstafana á afkomu ríkissjóð námu um 80 milljörðum kr. á árinu 2020. Auk þessa nam frestun skattgreiðslna 20,5 milljörðum kr. og ábyrgðir ríkissjóðs 31 milljarði kr. Við þetta bætist sjálfvirkt viðbragð skatt- og atvinnuleysisbótakerfis upp á ríflega 92 milljarða kr. Átak í fjárfestingu nam 15 milljörðum kr. á árinu en með því að hefja nýjar fjárfestingar eða flýta áður fyrirhuguðum fjárfestingum var ætlunin að auka umsvif í hagkerfinu og skapa störf. Á árinu voru samþykkt fimm fjáraukalög, þar af fjögur snemma árs til þess að heimila og fjármagna ýmsar aðgerðir sem ráðist var í vegna heimsfaraldursins og þau síðustu undir lok ársins.
    Ákvarðanir ráðherra um meðferð árslokastöðu ríkisaðila og verkefna koma fram í séryfirliti 16 á bls. 177 í ríkisreikningi. Fjárlaganefnd Alþingis hefur verðið gerð grein fyrir ákvörðunum ráðherra í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál.

2. Niðurstöðutölur ríkisreiknings 2020.
Afkoma.
    Rekstrarafkoma ársins 2020 var neikvæð um 144 milljarða kr. Tekjur námu samtals 802 milljörðum kr., þar af voru skatttekjur 655 milljarðar kr. Gjöld ríkissjóðs fyrir fjármagnsliði námu um 990 milljörðum kr., þar af voru rekstrartilfærslur 462 milljarðar kr. og laun og launatengd gjöld 279 milljarðar kr. Annar rekstrarkostnaður nam 205 milljörðum kr. Fjármagnstilfærslur námu 25 milljörðum kr. og afskriftir og niðurfærslur 20 milljörðum kr.
    Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 46 milljörðum kr., vaxtagjöld um 61 milljarði kr. og vaxtatekjur 15 milljörðum kr.
    Hlutdeild í afkomu félaga og samrekstrar var jákvæð um 90 milljarða kr. Jákvæð rekstrarafkoma Seðlabanka Íslands nam um 68 milljörðum kr., Landsvirkjunar nam um 9 milljörðum kr. og Landsbanka Íslands um 8 milljörðum kr. Neikvæð rekstrarafkoma Isavia nam 13 milljörðum kr. Áhrif af rekstri hlutdeildar- og dótturfélaga kemur fram í skýringu 15 á bls. 40 í ríkisreikningi.

Efnahagsreikningur.
    Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir samtals 2.613 milljarðar kr., skuldir og skuldbindingar samtals um 2.330 milljarðar kr. og eigið fé 283 milljarðar kr. Tafla 3 sýnir helstu þætti í efnahagsreikningi ársins.

Tafla 3. Samandreginn efnahagsreikningur.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Þróun skulda.
    Langtímaskuldir eins og þær eru settar fram í efnahagsreikningi ríkisreiknings eru 1.085 milljarðar kr og skiptast í skuldabréf 1.037 milljarða kr. að frádregnum næsta árs afborgunum 136 milljarða kr. að viðbættri hlutdeild í skuldum dótturfélaga með 183 milljarða kr. neikvæða eiginfjárhlutdeild.
    Heildarskuldir ríkissjóðs, eins og þær eru skilgreindar í fjárlögum fyrir árið 2020 eru, í árslok 2020, 1.248 milljarðar kr. og samanstanda af 1.024 milljarða kr. skuldabréfum og lántökum frá ÍL-sjóði fyrir 102 milljarða kr. að viðbættum tveimur liðum sem eru flokkaðir með skammtímaskuldum, víxlum fyrir 98 milljarða kr. og 23 milljarða kr. ógreiddum ógjaldföllnum vöxtum.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 var áætlað að heildarskuldir ríkissjóðs mundu lækka um 72 milljarða kr., þ.e. úr 892 milljörðum kr. í árslok 2019 í 820 milljarða kr. í árslok 2020. Heildarskuldir ríkissjóðs stóðu hins vegar í 1.248 milljörðum kr. í árslok 2020 og hækkuðu því um 428 milljarða kr. frá forsendum fjárlaganna. Þar af er skuldabréf sem gefið var út í evrum í júní 2020 að fjárhæð 500 milljónir evra sem jafngilti um 78 milljörðum kr. í árslok 2020. Innlendar skuldir jukust því um 350 milljarða kr. sem rekja má til hallareksturs ríkissjóðs á árinu vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum og uppbyggingar innlendrar sjóðstöðu um 64 milljarða kr. Heildarskuldir ríkissjóðs hækkuðu um 334 milljarða kr. á árinu 2020, úr 913 milljörðum kr. í 1.247 milljarða kr. Brugðist var við um 182 milljarða kr. fjárþörf ríkissjóðs og hærri sjóðstöðu með útgáfu ríkisskuldabréfa, með 102 milljarða kr. lántöku frá ÍL-sjóði og með um 76 milljarða kr. nettóaukningu útistandandi ríkisvíxla.

Sjóðstreymi.
    Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 131 milljarð kr. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 56 milljarða kr. en kaupverð varanlegra rekstrarfjármuna nam 48 milljörðum kr. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 272 milljarða kr., tekin voru langtímalán að fjárhæð 258 milljarðar kr. og afborganir langtímalána námu 125 milljörðum kr. Handbært fé jókst um 85 milljarða kr., var 270 milljarðar kr. í ársbyrjun en 378 milljarðar kr. í árslok.

Tekjur.
    Tekjur ríkisins af sköttum og tryggingagjöldum námu 744 milljörðum kr. og aðrar tekjur námu 58 milljörðum kr. Alls námu tekjur ríkisins án fjármunatekna því 802 milljörðum kr.
    Fjármunatekjur námu 14,6 milljörðum kr. Tekjur ríkissjóðs af afkomu félaga námu 90,1 milljarði kr. og teljast þær hluti af afkomu ársins í samræmi við hlutdeildaraðferð og kröfur IPSAS.
    Virðisaukaskattur, vörugjöld og aðrir óbeinir skattar og tollar skiluðu 313 milljörðum kr. tekjum. Skattar á tekjur og hagnað einstaklinga og lögaðila, laun, eignir og skuldir skiluðu 342 milljörðum kr. og tryggingagjöld 90 milljörðum kr. Alls námu því skattar og tryggingagjöld 744 milljörðum kr., eða 93% af heildartekjum án fjármunatekna. Af einstökum sköttum skilaði virðisaukaskattur mestum tekjum eins og undanfarin ár, eða 229 milljörðum kr.
    Vegna efnahagssamdráttar af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru drógust heildartekjur ríkisins að nafnvirði saman frá fyrra ári. Þær urðu jafnframt langt undir upphaflegri áætlun fjárlaga fyrir árið 2020 sem nam 909 milljörðum kr. Við upphaf heimsfaraldursins snemma árs varð fljótlega ljóst að endurmeta þyrfti tekjur ársins til lækkunar. Skatttekjur fylgja efnahagsþróuninni og merki þess sáust hratt á tekjuhliðinni þegar óvissa jókst, atvinna minnkaði og velta í ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinum dróst saman.
    Í séryfirliti 9 er leidd fram heildarafkoma á GFS-grundvelli með því að gera tilteknar aðlaganir á helstu liðum tekna og gjalda og raða þeim upp með sama hætti og í áætlun fjárlaganna. Frávik heildartekna frá áætlun fjárlaganna reynist neikvætt um 103,5 milljarða kr. Sé miðað við tekjuáætlun eins og hún var endurmetin við gerð frumvarps til fjáraukalaga undir árslok 2020 er frávikið hins vegar jákvætt um 12,8 milljarða kr.
    Sé litið til tekna af sköttum og tryggingagjöldum, sem saman mynda 98% ríkistekna (án tekna af starfsemi og fjármunatekna) samkvæmt uppgjörsstaðli Fjársýslu, urðu þær 1,5% umfram endurmetna tekjuáætlun í desember 2020. Uppgjörið sýnir þannig 726 milljarða kr. tekjur af sköttum og tryggingagjöldum, miðað við 802 milljarða kr. í fjárlögum ársins og 715 milljarða kr. í desember sl., og hefur uppgjörið þá verið aðlagað GFS-staðli. Tekjur af arðgreiðslum urðu 29 milljörðum kr. minni en í fjárlögum. Tekjur af starfsemi stofnana í A-hluta eru ekki fyllilega samanburðarhæfar í áætlun og uppgjöri en unnið er að því að svo verði.
    Tekjuþróun ríkisins á tíma faraldursins má að langmestu leyti rekja til hins sjálfvirka viðbragðs í skattkerfinu sem birtist í því að hinir ýmsu skattstofnar uxu minna en vænst hafði verið eða drógust saman. Áhrif þess á tekjurnar eru áætluð um 70 milljarðar kr. Til viðbótar kom tekjulækkun vegna mótvægisaðgerða stjórnvalda, en þær helstu sem höfðu áhrif á tekjur ársins 2020 voru tímabundið afnám gistináttaskatts, auknar og útvíkkaðar endurgreiðslur virðisaukaskatts og ný heimild til að afturfæra tap á móti hagnaði lögaðila. Á móti komu auknar tekjur af tekjuskatti vegna heimildar einstaklinga til að taka út séreignarsparnað. Auk þess var hætt við greiðslu arðs frá viðskiptabönkum í eigu ríkisins sem áætlaður var 23 milljarðar kr. í fjárlögum. Stærstu frávikin til lækkunar frá áætlun fjárlaga lágu því í virðisaukaskatti, tryggingagjaldi, tekjusköttum á lögaðila og fjármagnstekjum einstaklinga og arðgreiðslum. Innstreymi tekna dróst enn meira saman en álagðir skattar því að margir rekstraraðilar nýttu heimildir til að fresta greiðslum staðgreiðslu og virðisaukaskatts til ársins 2021.
    Óinnheimtar tekjur fyrri ára eru eignfærðar í efnahagsreikningi og árlega metnar og niðurfærðar. Beitt var sömu matsaðferð og undanfarin tvö ár, þ.e. sérstakri rýni til viðbótar við hefðbundið verklag. Eftirstöðvar voru greindar eftir einstökum tegundum skatta og aldri kröfu, og þörf fyrir niðurfærslu metin í ljósi sögulegrar reynslu af innheimtu. Mest var afskrifað af tekjuskatti einstaklinga, 8,1 milljarðar kr., og næstmest af VSK, 7,7 milljarðar kr. Tekjur utan skatta og tryggingagjalda voru færðar niður um alls 2,8 milljarða kr. og voru það aðallega sektarkröfur. Afskrift skattkrafna og annarra óinnheimtra tekna nam alls 21,7 milljörðum kr. sem er nokkru minna en undanfarin ár. Áætlað hafði verið að afskriftir mundu minnka meira milli ára og er niðurstaðan 4,6 milljarðar kr. umfram áætlun fjárlaga og skýrir því að hluta til hið neikvæða frávik tekjuhliðar. Afskrift krafna hefur þó ekki áhrif á tekjuuppgjör ríkisreiknings samkvæmt IPSAS-staðli heldur færist með gjöldum. Afskrift skattkrafna kemur hins vegar til lækkunar á tekjum samkvæmt GFS.

Gjöld málefnasviða.
    Á árinu voru samþykkt fimm fjáraukalög og þau síðustu undir lok ársins og verulega var bætt í fjárheimildir á árinu sem hefur áhrif á frávikagreiningu ársins. Gjöld umfram rekstrartekjur voru alls 1.040 milljarðar kr. sem voru 43 milljörðum kr. innan fjárheimilda eins og kemur fram í séryfirlit 2 á bls. 74 í ríkisreikningi. Heildarfjárheimild ársins án fjárfestingarframlags nam 1.083 milljörðum kr. og er sundurliðun eftir eðli fjárheimilda í skýringu 5 á bls. 103 í ríkisreikningi.
    Í töflu 4 er yfirlit um málefnasvið með meira en 1 milljarðs kr. fráviki frá heildarfjárheimildum ársins. Yfirlit um stöðu málefnasviða, málaflokka og ríkisaðila kemur fram í séryfirliti 2 á bls. 74 í ríkisreikningi.

Tafla 4. Málefnasvið með meira en 1 milljarðs kr. fráviki frá fjárheimildum (heildarfjárheimildir að teknu tilliti til fluttra fjárheimilda frá fyrra ári)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Árið 2020 var óvenjulegt vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákveðið var að fara í umfangsmiklar efnahagsaðgerðir og fjárfestingarátak. Stærsta frávikið er litað að því, þ.e. á málefnasviði 30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi sem er 34 milljörðum kr. innan fjárheimilda. Vinnumál og atvinnuleysi sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið er 5,4 milljörðum kr. innan heimilda og stuðningur við fyrirtæki vegna heimsfaraldursins er 29 milljörðum kr. innan heimilda. Í báðum tilvikum var bætt við fjárheimildum í fjáraukalögum en verkefnin færast yfir áramót.
    Aðrir stórir liðir sem skýra jákvætt frávik frá fjárheimildum eru málefnasvið 24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa sem er 4,8 milljörðum kr. innan heimilda sem skýrist af innleiðingu á fjármögnunarlíkönum fyrir heilsugæsluna. Málefnasvið 21 Háskólastig er 4,1 milljarði kr. innan heimilda sem skýrist að stærstum hluta af áhrifum dóttur- og hlutdeildarfélaga Háskóla Íslands.
    Málefnasvið með halla umfram 1 milljarð kr. eru fjögur. Málefnasvið 33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar er með mesta frávikið, eða 18,9 milljarða kr., sem skýrist að stærstum hluta af því að fjármagnskostnaður var 27,3 milljörðum kr. hærri en samkvæmt áætlun. Málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta er með um 3 milljarða kr. halla, en Landspítali er með 4,2 milljarða kr. halla. Á málefnasviði 34 voru 1,2 milljarðar kr. umfram frávik, fjárheimild almenns varasjóðs var 2,8 milljarðar kr. innan heimilda en afskriftir skattkrafna voru 4,6 milljarðar kr. umfram fjárheimild ársins. Málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál er með um 1 milljarð kr. umfram fjárheimild ársins, að stærstum hluta vegna halla Vegagerðarinnar.
    Í ársskýrslum ráðherra sem bera ábyrgð á framangreindum málefnasviðum er fjallað um rekstrarniðurstöður málaflokka og þar koma einnig fram skýringar á helstu frávikum og sundurliðun útgjalda málefnasviða niður á málaflokka. Helstu ástæður fyrir frávikum málefnasviða sem fara meira en 1 milljarð kr. umfram fjárheimildir eru samkvæmt ársskýrslum ráðherra:

Málefnasvið 33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar, 18,9 milljarðar kr. umfram áætlaðar fjárheimildir.
    Í málaflokki 33.1 Fjármagnskostnaður nema útgjöld 72 milljörðum kr. sem eru 27,3 milljörðum kr. umfram áætlun. Frávikið skýrist að nær öllu leyti af veikingu íslensku krónunnar, þ.e. gengisáhrifum á höfuðstól erlendra lána, en ekki er áætlað fyrir breytingum á gengi krónunnar. Vaxtastig reyndist lægra en áætlað var sem dró úr vaxtakostnaði vegna innlendra lána þrátt fyrir stóraukna útgáfu ríkisbréfa. Í málaflokki 33.3 Lífeyrisskuldbindingar nema útgjöld 53,9 milljörðum kr. og eru þau 7,9 milljörðum kr. lægri en áætlanir. Frávikin skýrast að mestu af því að hrein raunávöxtun á fyrirframgreiðslum ríkissjóðs upp í bakábyrgðarskuldbindingar í B-deild LSR var með hæsta móti, eða 12,2%.

Málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta, 3,5 milljarðar kr. umfram fjárheimildir.
    Útgjöld málaflokks 23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta eru 0,4% umfram fjárheimildir ársins en uppsafnaður halli er um 3,5 milljarðar kr. og skýrist að mestu af hallarekstri Landspítala árin á undan.

Málefnasvið 34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir, 1,2 milljarðar kr. umfram áætlaðar fjárheimildir.
    Afskrift skatta og annarra óinnheimtra ríkistekna í málaflokki 34.3 Afskriftir skattkrafna nam 21,7 milljörðum kr. sem eru 4,6 milljarðar kr. umfram heimildir en er lægra en undanfarin ár. Óinnheimtar eftirstöðvar eru metnar árlega og færðar niður með tilliti til þess hversu líklegt er að þær muni innheimtast. Málaflokkur 34.10 Almennur varasjóður var með 2,8 milljarða kr. jákvætt frávik, en gerð er ítarleg grein fyrir umfangi og ráðstöfun úr almennum varasjóð í ársskýrslu fjármála- og efnahagsráðherra.

Málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál, 1,0 milljarður kr. umfram fjárheimildir.
    Útgjöld Vegagerðarinnar voru um 0,8 milljarðar kr. umfram fjárveitingu. Að stærstum hluta er um að ræða uppsafnaðan halla á þjónustulið vegna aukins umferðarþunga og erfiðrar vetrarfærðar nokkur ár í röð.

Fjárfestingar.
    Fjárfestingar ársins námu 48, milljörðum kr. og voru 37,4 milljörðum kr. lægri en heimildir til ráðstöfunar á árinu. Fjárfestingarframlag til ráðstöfunar á árinu nam 85,3 milljörðum kr., en þar af voru fjárheimildir frá fyrra ári 18,5 milljarðar kr. Þá var ráðist í sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, með nýjum heimildum til fjárfestinga, til þess að sporna við samdrætti í hagkerfinu með áherslu á mannaflafrek verkefni. Hluti þeirra verkefna kom einnig til framkvæmda á árinu 2021.
    Í töflu 5 er yfirlit um málefnasvið sem skýra helstu frávik frá áætlaðri fjárfestingu ársins og voru þau öll innan fjárfestingaheimilda.

Tafla 5. Málefnasvið sem skýra helstu frávik frá heimilaðri fjárfestingu ársins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.